Nýja Robocop verður öðruvísi

Hvort sem aðdáendum líkar það betur eða verr þá mun glæný Robocop-mynd líta dagsins ljós. Myndin er þó alls ekki í slæmum höndum en leikstjóri hennar, Jose Padilha, gerði hina marglofuðu Tropa de Elite.

Padhila hefur ekki sagt frá miklu upp á síðkastið en nýlega ákvað hann að tjá sig aðeins um verkið í viðtali við hollensku kvikmyndasíðuna Film1. Þetta er það sem leikstjórinn hafði að segja um þessa endurgerð eftir að hann var spurður hvernig hans mynd verður frábrugðin þeirri upprunalegu:

„Ég elska hvað sú gamla er beitt og með skemmtilegan pólitískan tón, og önnur slík mynd er algjörlega nauðsynleg í dag. Ég ætla samt ekki að endurtaka það sem (Paul) Verhoven gerði, því hann gerði það svo markvisst og vel. Í staðinn ætla ég að reyna að fara út í það sem hann gerði ekki. Ef þú ert t.d. maður sem er breyttur í vélmenni, hvernig er farið að slíku? Hvað gerist við persónuleikan þinn? Hvernig virkar frjáls vilji? Hvað þýðir það fyrir þig þegar þú tapar viljastyrknum og verður að hálfri tölvu? Það eru svona spurningar sem ég vil eindregið kafa út í en samt halda svipuðum keim og sú gamla.“