Stallone og De Niro mætast í hringnum

Undanfarna mánuði hafa kvikmyndaleikararnir Robert De Niro og Sylvester Stallone verið að hnusa af handriti fyrir grínmyndina Grudge Match, en hugmyndin að myndinni kom fyrst fram fyrir réttum tveimur árum, í október 2010. Það var samt ekki fyrr en í júlí á þessu ári að félagarnir fóru fyrir alvöru að skoða þennan möguleika og hafa nú báðir samþykkt að vera með samkvæmt Empire kvikmyndaritinu.

Myndin á að fjalla um gamla boxara sem eru sestir í helgan stein, en eiga að mætast aftur í hringnum. Eins og kvikmyndaáhugamenn vita þá eru báðir menn þekktir fyrir hlutverk sín í boxhringnum, Stallone í Rocky og De Niro í Raging Bull.

Þeir sem hafa séð Stallone nýlega, til dæmis í Expendables 2, vita að hann er í fantaformi, en spurning hvort De Niro sé jafn hrikalegur.

Peter Segal er sagður eiga að leikstýra myndinni og Kevin Hart á að leika gaurinn sem skipuleggur box keppnirnar.

Doug Ellin er að skrifa handritið, en ekkert hefur verið látið uppi með það hvenær tökur eiga að hefjast, en það ætti að fara að styttast …