Robert De Niro fær heiðursverðlaun á Golden Globe

Gamli refurinn Robert De Niro verður heiðraður á Golden Globe hátíðinni á næsta ári. Mun Robert fá afhent Cecile B. DeMille verðlaunin sem viðurkenning fyrir kvikmyndaferil sinn, sem nær yfir næstum 50 ár og meira en 70 kvikmyndir. Verðlaunin verða afhent þann 16. janúar nk.

Það var kollegi De Niro, Kevin Spacey, sem tilkynnti um að De Niro fengi verðlaunin, sem verða fyrstu Golden Globe verðlaun leikarans.

Robert hefur átt stórglæsilegan feril, sem hófst með eftirminnilegum leik í hlutverki bófa og utangarðsmanna í myndum eins og Mean Streets, Taxi Driver og The Godfather: Part II.
Hann fékk fyrstu Óskarsverðlaun sín fyrir meðleik í síðastnefndu myndinni, en fékk svo verðlaun fyrir bestan leik í aðalhluverki fyrir túlkun sína á hnefaleikamanninum Jake LaMotta í Raging Bull.

Leikarinn talaði í síðustu viku um helstu markmið sín á þessu tímapunkti í lífi sínu: „Ég vil gera kvikmyndir sem hafa áhrif; einhver skilaboð til heimsins. Sumar mynda minna eru þannig. Þegar ég gerði Taxi Driver, vissum við ekki að viðbrögðin myndu verða eins og urðu. Það er enda ómögulegt að segja fyrir um viðbrögð við myndum. Ef þær snerta við áhorfendum á einhvern hátt, þá eru þær í lagi – þannig á það að vera . Ég vonast til að gera, og er að gera, kvikmyndir sem ég tel að geri þetta.“

Robert hefur áður fengið átta tilnefningar til Golden Globe verðlauna á ferlinum.

Þó að leikarinn sé einkum þekktur fyrir að leika harðsoðnar persónur, þá hefur hann einnig fengið lof fyrir frammistöðu í gamanhlutverkum, eins og í myndunum Analyze This og Meet The Parents.
Næsta mynd Roberts De Niro er Little Fockers, sem kemur í bíó í Bandaríkjunum 22. desember nk.