Helgin í bíó: Osló og Rangó á toppnum

Það var líflegt um að litast í íslenskum bíóum um helgina, enda fjórar myndir frumsýndar, íslenska gamanmyndin Okkar eigin Osló, teiknivestrinn Rango, kvennastandsgrínið Hall Pass og háskólaspennutryllirinn The Roommate. Í stað pistils um aðsóknina ætla ég að hafa þessa frétt í punktaformi þar sem ég útnefni verðlaunahafa í ýmsum flokkum.

HÁSÆTI VIKUNNAR: Okkar eigin Osló OG Rango
Það er samsteypustjórn á toppnum, því Okkar eigin Osló tók inn mestar tekjur, 4,1 milljón króna af um 3.200 gestum. Þetta er meira en tvöföld aðsókn miðað við síðustu íslensku mynd, Rokland, sem eru frábærar fréttir og boða gott fyrir Reyni Lyngdal og aðra aðstandendur myndarinnar, því Rokland stendur í rúmlega 10.000 áhorfendum í dag.
Hins vegar var Rango með flesta áhorfendur, alls tæplega 4.800, en tekjurnar voru um 3,8 milljónir. Af þessum 4.800 hafa líklega um 60 fattað Fear and Loathing-brandarann í myndinni. Undirritaður öskraði af hlátri, og sá svo 80 manns í kringum sig glápa skilningsvana á sig eins og hann væri ekki alveg í lagi.

FLOPP VIKUNNAR: The Roommate
Það eru nú venjulega ekki miklar væntingar gerðar til mynda af þessari tegund, en mig rennur í grun að aðstandendur hafi vonast eftir meiru en 822 áhorfendum og um áttahundruðþúsundkalli í kassann. Hei, heit gella að stalka heita gellu og reyna að drepa hana/sofa hjá henni(?). Hvað getur klikkað?

MERCEDES BENZ VIKUNNAR / VARÐA VIKUNNAR: The King’s Speech
Góðir Benzar ganga og ganga og ganga og ganga. Það gerir The King’s Speech líka. Á sinni sjöttu sýningarhelgi var aðsóknin næstum jafn mikil og á frumsýningarhelginni (1.499 áhorfendur) og jókst um 4% á milli helga. Heildaraðsókn er komin yfir 20.000 manns og er myndin í augnablikinu næstvinsælasta mynd ársins (á eftir Klovn: The Movie), og því fær myndin einnig vörðu vikunnar

GAMLINGI VIKUNNAR: Tangled
Disneymyndin Tangled er nú búin að vera heilar 7 helgar í sýningu og hangir enn í 15. sætinu. Heildaraðsókn er komin í tæpa 19.000 áhorfendur, og það bætast nokkur hundruð við vikulega.

FLUGHRAP VIKUNNAR: Big Mommas: Like Father, Like Son
78% afföll af aðsókn og niður um 10 sæti (úr því 6. í það 16.) á milli helga, takk fyrir. Þetta er það sem gerist þegar það bætast ekki ein heldur tvær gamanmyndir í samkeppnina. Ekki verður það betra þegar þær myndir reynast góðar.

Þið getið séð allan listann á Aðsóknarsíðunni okkar. SMELLIÐ HÉR