Stallone snýr aftur í Rambo 5

Sylvester Stallone er samkvæmt kvikmyndavefsíðunni Screen Daily sagður ætla að snúa aftur í hlutverki fyrrum sérsveitarmannsins John Rambo í Rambo 5, og talað er um að framleiðslufyrirtækið Millennium Media muni kynna verkefnið á kvikmyndahátíðinni í Cannes sem hefst núna á þriðjudaginn, 8. maí.

Framleiðsla myndarinnar í hinni 36 ára gömlu seríu, sem hófst eins og flestir vita með First Blood árið 1982, er sögð eiga að hefjast 1. september nk. og tekið verði upp í London, Búlgaríu og á Kanaríeyjum.

Matt Cirulnick skrifar handrit, en leikstjóri er enn á huldu. Ekki er talið að það verði Stallone sjálfur.

Í þessari fimmtu mynd munum við koma aftur að John Rambo þar sem hann býr á búgarði í Arizona. Hann er í tómu tjóni andlega, og glímir við PTSD, eða heilkennið þar sem erfiðir atburðir úr fortíðinni herja á hugann. Hann vinnur fyrir sér með því að taka að sér viðvik hér og þar.

Þegar gamall fjölskylduvinur, Maria, segir Rambo að dótturdóttir hennar hafi týnst, eftir að hafa farið yfir landmærin til Mexíkó í partí, þá græjar Rambo sig upp í verkefnið og hefur leit að ungmenninu.

Í hönd fer blóði drifin vegferð, þar sem Rambo afhjúpar mansalshring. Hann slæst í för með blaðamanni sem er búinn að missa hálfsystur sína í hendur hringsins, og nú þarf Rambo að beita öllum sínum kröftum til að ráða niðurlögum illskeytts glæpaforingja.