Rambo endurræstur – Stallone fjarri góðu gamni

Nu Image/Millennium Films hefur í hyggju að endurræsa hina sígildu Rambo seríu, sem var með Sylvester Stallone í titilhlutverkinu. Brooks McLaren mun skrifa handrit og The Iceman leikstjórinn Ariel Vromen mun leikstýra.

rambo

Í myndinni, sem mun heita Rambo: New Blood, eða Rambó: Nýtt blóð, mun Stallone sjálfur verða fjarri góðu gamni, en yngri leikari fenginn í hlutverk „eins manns hersins“ John Rambo. Framleiðendur sjá fyrir sér að þessi nýi Rambo verði í stíl við James Bond, samkvæmt frétt The Hollywood Reporter.

Rambo kom fyrst fram á sjónarsviðið í skáldsögu David Morrell frá árinu 1972, First Blood. Gerð var bíómynd eftir bókinni árið 1982 með Stallone í hlutverkinu, en auk þess að vera hasarmynd var dramatískur tónn í myndinni og fjallað um veruleika fyrrum Víetnamhermanna, eftir að þeir komu heim úr stríðinu.

 

Rambo sneri síðan aftur árið 1985 í Rambo: First Blood Part II, sem var ekta harðsoðin hasarmynd, þar sem enginn annar en James Cameron var með puttana í handritinu. Myndin sló í gegn í miðasölunni.

Rambo III kom í bíó árið 1988, en hún var ekki af sömu gæðum og mynd númer tvö og gekk verr í miðasölunni. Rambo lagðist síðan í dvala, en vaknaði af þeim dvala árið 2008, þegar Stallone sneri aftur enn á ný í hlutverkinu í Rambo IV.

Ekkert er enn vitað um söguþráð Rambo: New Blood.