Star Trek hugsanlega síðasta kvikmynd Tarantino

Leikstjórinn Quentin Tarantino hefur lagt fram hugmynd að nýrri Star Trek kvikmynd til Paramount Pictures og hjólin eru nú þegar farin að snúast. Framleiðandinn og leikstjórinn J.J. Abrams boðaði til fundar með Tarantino og í kjölfarið verður settur saman hópur handritshöfunda til þess að þróa hugmyndina betur. Ef allt fer á besta veg þá gæti tíunda og jafnvel síðasta kvikmynd Tarantino gerst í hinum stóra söguheimi Star Trek. Tarantino hefur oft sagt að hann ætli að hætta að leikstýra eftir að hann lýkur við sína tíundu kvikmynd.

Tarantino er þessa dagana að undirbúa sína níundu kvikmynd og mun hún fjalla um Charles Manson og fjöldamorðin sem hann fyrirskipaði árið 1969. Abrams er hinsvegar að hefja framleiðslu á Star Wars: Episode IX, sem hann mun einnig leikstýra. Tarantino yrði í góðum félagskap því hann hefur aldrei áður gert kvikmynd sem gerist út í geimi. Abrams hefur mikla reynslu af vetrarbrautunum og hefur hann t.a.m. framleitt og leikstýrt Star Trek kvikmyndum.

Ef Tarantino tekur við leikstjórn myndarinnar þá yrði það algjörlega úr takt við hans vinnuferli því leikstjórinn hefur nær alltaf skrifað kvikmyndir sínar upp á eigin spýtur. Það hefur áður verið talið að þriðja myndin í Kill Bill-seríunni yrði sú tíunda í röð leikstjórans og er því spurning hvort hann muni einungis vera einn af handritshöfundum umræddrar Star Trek-myndar. Tíminn mun leiða það í ljós.

Alls hafa verið gerðir í kringum 740 þættir og 13 kvikmyndir um söguheim Star Trek. Heimurinn gengur út á það að mannkynið hefur, ásamt íbúum fleiri reikistjarna, sameinast í United Federation of Planets (oft kallað Federation í þáttunum) og vinna þar með saman að þeim vandamálum sem koma upp.