Hugh Jackman á toppnum í 8. sinn

Warner Bros. dramað, Prisoners, sem leikstýrt er af Denis Villeneuve, og er með Hugh Jackman og Jake Gyllenhaal í aðalhlutverkum, verður líklega mest sótta mynd helgarinnar í Bandaríkjunum en búist er við að hún þéni um 20 milljónir Bandaríkjadala yfir helgina alla.

hugh jackman

Ef svo fer yrði þetta áttunda toppmynd Jackman í Bandaríkjunum á ferli sínum.

Samkvæmt bráðabirgðatölum þá þénaði myndin 8 milljónir dala í gær, föstudag. Myndin kostaði um 30 milljónir dala í framleiðslu, og útlitið því gott.

Prisoners segir frá trésmiði í litlum bæ, sem Jackman leikur, sem tekur lögin í sínar eigin hendur til að bjarga dóttur sinni og bestu vinkonu hennar, sem hefur verið rænt. Aðrir leikarar eru Paul Dano og Melissa Leo.

Toppmynd síðustu helgar, Insidious: Chapter 2 er líkleg til að þéna 12 milljónir dala yfir helgina alla í öðru sætinu.

Myndin, sem kostaði einungis 5 milljónir dala í framleiðslu, hefur nú þegar þénað 46 milljónir dala í Bandaríkjunum.

Ein önnur ný mynd er frumsýnd nú um helgina, en það er 3D – dansmynd með hip-hop listamanninum Chris Brown í aðalhlutverkinu, Battle of the Year. Tekjur myndarinnar yfir helgina eru áætlaðar 5 milljónir dala, en það kostaði 20 milljónir dala að gera hana.

Með annað helsta hlutverk í myndinni fer „Lost“ leikarinn Josh Holloway. Miðað við tölur helgarinnar þá þarf myndin að spýta verulega í lófana til að ná inn fyrir kostnaði.