Sex and the City stjarna í stjórnmálin

Bandaríska Sex and the City stjarnan Cynthia Nixon hefur ákveðið að bjóða sig fram í embætti ríkisstjóra í New York fylki. Núverandi ríkisstjóri, Andrew Cuomo mun þannig fá verðuga samkeppni frá þessari heimsfrægu stjörnu.

Tilkynningin um framboð Nixon var birt í gær, en Nixon er langt í frá nýliði á vettvangi stjórnmálanna. Hún hefur tekið þátt í stjórnmálastarfi í nokkurn tíma og barðist m.a. fyrir því að samkynhneigðir gætu gengið í hjónaband árið 2011 ( hún er gift aðgerðasinnanum og LGBTQ baráttukonunni Christine Marinoni ) og árið 2014 skipaði borgarstjórinn í New York, Bill de Blasio, hana í sérstaka nefnd á vegum borgarinnar vegna menntunar, heilsu og menningar í borginni.

Í síðasta mánuði vakti Nixon athygli á launamisrétti í ríkinu, en það verður eitt hennar helsta baráttumál í kosningunum.

Í myndbandi sem Nixon gerði vegna baráttunnar, talar hún um uppvöxt sinn í New York borg, og vekur athygli á fátækt í New York ríki.

„Við viljum að yfirvöld beini sjónum að heilsugæslu, fjöldafangelsunum, og neðanjarðarlestunum.“

Hér má kynna sér framboð Nixon.