Taken 2 aftur á toppnum – Argo í öðru

Spennutryllirinn Taken 2 hélt toppsætinu á aðsóknarlistanum í bíó í Bandaríkjunum um helgina aðra vikuna í röð, og þénaði 22,5 milljónir Bandaríkjadala. Sú mynd sem kom mest á óvart var nýjasta mynd Ben Affleck, Argo, en tekjur af sýningu hennar námu 20,1 milljón dala um helgina. Grínistanum Kevin James tókst hinsvegar ekki að heilla nógu marga bíógesti með myndinni Here Comes the Boom, og lenti í fimmta sæti þessa frumsýningarhelgi sína með 12 milljónir dala í tekjur. Þetta er versta útkoma á mynd með Kevin James frá því að hann söðlaði um yfir í bíómyndirnar, en James sló fyrst í gegn í grínþáttum í sjónvarpi.

Argo er mesti smellur Ben Affleck á frumsýningarhelgi, fyrir mynd þar sem hann er sjálfur í lykilhlutverki, eða síðan hann lék í Daredevil árið 2003.

Gengi Argo um helgina er einnig það næst besta af myndum sem Affleck hefur leikstýrt sjálfur, en The Town náði betri árangri á sinni fyrstu helgi í bíó.

Argo er spennutryllir sem fjallar um gísladeiluna í Íran. Myndin fékk góðar viðtökur áhorfenda um helgina, og nú er farið að tala um að myndin sé Óskarskandidat.

Hryllingsmyndin Sinister með Ethan Hawke fékk einnig góða byrjun um helgina, og endaði í þriðja sæti aðsóknarlistans með 18,3 milljónir dala í tekjur.  Þetta er flottur árangur, enda er þetta frekar lítil mynd sem kostaði einungis 3 milljónir Bandaríkjadala í framleiðslu.

Seven Psychopaths, náði níunda sætinu og þénaði 4,3 milljónir dala í tekjur, en það kostaði 15 milljónir dala að búa hana til.

Hér er topp tíu listinn í heild sinni:

  1. Taken 2, 22,5 milljónir dala.
  2. Argo, 20,1  milljónir dala.
  3. Sinister, 18,3  milljónir dala.
  4. Hotel Transylvania, 17,3  milljónir dala.
  5. Here Comes the Boom, 12  milljónir dala.
  6. Pitch Perfect, 9,3  milljónir dala.
  7. Frankenweenie, 7  milljónir dala.
  8. Looper, 6,3  milljónir dala.
  9. Seven Psychopaths, 4,3  milljónir dala.
  10. The Perks of Being a Wallflower, 2,2  milljónir dala.