Almenningur fær að velja málsverð mannætufiska

Kvikmyndaunnendum er nú gefið frábært tækifæri til að fá beina hlutdeild í gerð kvikmyndar. Nú er unnið að framhaldi hrollvekjunnar Piranha 3 D, sem enn á eftir að frumsýna hér á landi, en hún fjallar um mannætufiska sem losna úr læðingi eftir jarðskjálfta á fjölmennri baðströnd, með mjög svo blóðugum afleiðingum. Almenningi gefst sem sagt kostur á því núna að kjósa um hvaða frægu manneskju þeir vilja sjá verða étin eða drepin í næstu mynd, af Piranha mannætufiskunum ógeðfelldu. Fiskarnir sem um ræðir eru þeir sem sjá má á meðfylgjandi mynd vera um það bil að fara að gæða sér á leikkonunni Jessica Szohr:

Ekki geðslegir !

Hér er smá spoiler viðvörun: hugmyndin að þessari kosningu kom eftir að áhorfendur fyrstu myndarinnar sögðust hafa notið þess í botn að horfa á persónu Jerry O´Connel missa sitt allra heilagasta í kjaft blóðþyrstu kvikindanna.

Yfirmenn Weinstein kvikmyndafyrirtækisins búast við að fá sérstaklega margar uppástungur um leikara úr þáttunum Jersey Shore og The Real Housewives, að því er sagt er frá í bandaríska blaðinu New York Post.

Annars er áhugavert að sjá hvað þér finnst – hvaða kvikmyndaleikara væri gaman að horfa á að vera étinn af mannætufiskum?

Stikk: