Brosnan fer aftur í spæjaragírinn

Tíu árum eftir að hann steig niður úr hlutverki frægasta njósnara hennar hátignar mun Pierce Brosnan snúa aftur á svipaðar grundir í fyrsta skipti. Tilkynnt var í dag að framleiðsla hæfist í haust á spennumyndinni November Man sem fyrirtæki Brosnan, Irish Dreamtime, mun framleiða. Ásamt Brosnan mun bretinn Dominic Cooper fara með stórt hlutverk í myndinni –  en þeir deildu síðast skjánum í söngamyndinni vinsælu Mamma Mia. Væntanlega verða þó ekki mikil önnur líkindi með myndunum tveimur.

Myndin segir frá fyrrum útsendara CIA sem er kallaður aftur í persónulegt verkefni og lendir í því að þurfa að takast á við fyrrum lærling sinn í stórhættulegri atburðarás sem háttsettir yfirmenn leyniþjónustunnar og verðandi forseti Rússlands flækjast inn í. Brosnan mun væntanlega leika hlutverk fyrrum útsendarans, og Cooper hlutverk arftaka hans. Leikstjóri verður Roger Donaldson (Dante’s Peak). Myndin byggir á bókinni There Are No Spies eftir Bill Granger, og er hugsuð sem fyrsta myndin í nýrri kvikmyndaseríu ef allt fer að óskum. Handrit myndarinnar skrifuðu Michael Finch og Karl Gajdusek (sem vann með Baltasar okkar Kormáki að væntanlegri Víkingamynd hans).

Er kominn tími á „kombakk“ fyrir Brosnan… eða ætti hann að láta spæjaradótið kyrrt liggja? Hvað segja lesendur?