Hobbitinn gæti orðið að þríleik

Margir eiga eflaust eftir hafa skiptar skoðunir á þessu og margir lesendur munu líklega hneykslast og verða fyrir vonbrigðum við að heyra þessa tilkynningu en samkvæmt Peter Jackson hyggst hann nú skipta Hobbitanum í þrjár myndir í stað tveggja. Það sem olli þessari (líklegu) breytingu var að eftir tökur komst Jackson að því hversu mikið myndefni hann hafði í raun tekið upp, en nú íhugar hann að taka upp meira myndefni til að geta skipt sögunni í þrennt.

Á Comic-Con viðburði myndarinnar sagði Peter að hann ætlaði annað hvort að gefa út lengri útgáfur á DVD líkt og með Hringadróttinssögu eða breyta tvíleiknum í þríleik.

Frá sjónarhorni Jackson væri síðarnefndi kosturinn klárlega sá betri þar sem hann gæti leikið sér frekar með Hobbitann og tekið djarfar listrænar ákvarðanir (eins og að gera þær t.d. hægbrennandi fantasíumyndir) því ALLA langar að sjá þessar myndir og hann myndi einnig græða mun meira á þríleik en tvíleik. Einnig eru myndirnar ekki einungis byggðar á Hobbitanum, heldur eru atburðir úr öðrum verkum Tolkiens sem gerast samtímis einnig í myndunum (eins og með Gandalf gegn Necromancer). Sjálfur er ég mun spenntari nú þar sem möguleikarnir verða margfaldaðir með þessari (hugsanlegri) ákvörðun og við myndum fá Hobbitann þrjú jól í röð!

 

Eins og stendur eru einungis tvær myndir tilkynntar byggðar á Hobbita Tolkiens. Sú fyrsta er væntanleg í desember á þessu ári og ber heitið The Hobbit: An Unexpected Journey og sú seinni, The Hobbit: There and Back Again, kemur út ári síðar.

Hvort hljómar þessi hugmynd fyrir ykkur lesendum? Sannur draumur eða eintómt peningaplokk?