Hobbitinn lítur (vonandi ekki) illa út

Eða sú er að minnsta kosti krítíkin frá Las Vegas.

Fyrir u.þ.b. fjórum dögum héldu Warner Bros. sérstaka sýningu fyrir fyrri hluta The Hobbit-tvíleiksins á CinemaCon hátíðinni og sýndu 10 mínútur af myndefni í heildina. Það sem áttu að vera 10 mínútur af hreinskærri nördaraðfullnægingu, breyttust fljótt í ljótan viðburð. The Hobbit er nefninlega tekin upp á 48 römmum á sekúndu, í staðinn fyrir hið hefðbundna 24 rammar á sekúndu form. Fyrir mönnum eins og leiksjóra myndarinnar, Peter Jackson, og James Cameron þá er þetta næsta skrefið í kvikmyndagerð og myndgæðum í heild sinni. Heildar álit aðdáenda var hins vegar ekki hið sama og var myndgæðum Hobbitans borið saman við háskerpu fréttaútsendingu, sjónvarps-gerða kvikmynd og sagt hefur verið að þetta dragi fram tölvugerða hluti sem væru annars faldir.

Nú hefur Jackson sjálfur komið fram og svarað allri gagnrýninni sem myndin fékk á sig: „Tæknin mun halda áfram að þróast. Fyrst er þetta skrítið vegna þess að þú hefur aldrei séð svona mynd. Þetta er bókstaflega ný upplifun, en það varir ekki út alla myndina; þvert á móti, kannski rétt yfir 10 mínútur. Nokkrir neikvæðir gagnrýnendur sögðu að í atriðinu með Bilbo og Gollum [sem átti sér stað seint í sýningunni] væru þeir orðnir vanir gæðunum. Það var sami rammafjöldi og restin af myndefninu. Ég er bara að pæla hvort að þeir komust þá svona virkilega inn í samtölin, persónurnar og söguna. Það gerist í myndinni, þú sættir þig við þetta.“

Sjálfur hefur undirritaður ekki séð gæðin, en það vaknar nú í manni svolítil forvitni að sjá myndina svona til að reyna á orð Jacksons. Annars þurfa aðdáendur ekki að örvænta, því Warner Bros. vildu taka það fram að myndin verður sýnd í 3D, 2D og bæði 48 og 24 ramma á sekúndu. The Hobbit: An Unexpected Journey kemur síðan þann 26. desember síðar á árinu.