Önnur Tinnamynd (eiginlega) á leiðinni

Hin dúndurskemmtilega The Adventures of Tintin: The Secret of the Unicorn var forsýnd hjá okkur í fyrradag en einnig í gær í Laugarásbíói, og ég held að langflestir sem hafa hingað til séð þetta gríðarlega flotta kvikindi geta verið sammála um að þeir vildu sjá meira um leið og hún kláraðist. Seinustu daga hafa margir velt því fyrir sér hvernig staðan er á næstu Tinnamynd en samkvæmt The Hollywood Reporter mun þetta vera næsta verkefni Peters Jacksons, eftir The Hobbit. Ég giska þá á svona allavega fjögur ár (kannski þrjú), þannig að í bili megið þið setja upp besta fýlusvipinn ykkar.

Samkvæmt Steven Spielberg er þegar búið að skrifa handritið að næstu mynd (sem er gott!) og veltur allt á tekjum fyrstu myndarinnar hvort gefið verður grænt ljós á verkið strax eða ekki. Það var víst Anthony Horowitz – þekktur breskur rithöfundur – sem var fenginn til að skella tveimur Tinnabókum saman í framhaldsmyndina (það munu vera Sjö kraftmiklar kristalskúlur og Fangarnir í sólhofinu). Sagt er að Spielberg & Jackson ætli sér hiklaust að gera aðra mynd, og síðan mögulega tvær í viðbót. Óljósar heimildir segja að bækurnar Eldflaugastöðin og Í myrkum mánafjöllum verða notaðar fyrir þriðju myndina.

Finnst einhverjum öðrum það pínu svekkjandi að gamla handritstríóið (Moffat, Cornish & Wright) snúi ekki aftur? Bara pínu. Skiljanlegt þó að þeir hafi eflaust margt, margt annað að gera.