Múrsteinshús hýsa hættulega glæpamenn

Spennumyndin Brick Mansions, með Paul Walker heitnum, David Belle og RZA verður frumsýnd miðvikudaginn 18. júní. Myndin verður sýnd í Laugarásbíói, Smárabíói og Borgarbíó Akureyri.

Brick Mansions er seinasta kvikmyndin sem Paul Walker lék í, en hann kláraði tökur á henni aðeins 3 dögum fyrir andlát sitt í bílslysi í Los Angeles á síðasta ári.

brickmansions

Myndin gerist í Denver og ríkir þar glundroði. Gömul múrsteinshús, sem voru áður minnisvarðar um betri tíð, hýsa nú aðeins hættulegustu glæpamenn borgarinnar. Há glæpatíðni reynist lögreglunni ofviða, og því reisir hún risavaxinn vegg í kringum svæðið til að vernda borgarbúa. Á meðan leynilögreglumaðurinn Damien Collier (Walker) reynir að uppræta spillingu í borginni, á fyrrverandi fanginn Lino (Belle) fullt í fangi með lifa heiðvirðu lífi. Einn dag mætast leiðir þeirra þegar glæpaforinginn Tremaine (RZA) rænir kærustu Linos, og Damien ákveður að þiggja aðstoð hans við að stöðva hættulegt ráðabrugg um að leggja alla borgina í rúst.

Hér að neðan má sjá stiklu úr myndinni.