Tommi fer á stelpu og strákamynd

Tommi, gagnrýnandinn okkar hér á kvikmyndir.is, skellti sér á tvær nýjar, en ólíkar myndir í bíó í gær. Það má segja að önnur sé stelpumynd en hin strákamynd.

Hann gefur þeirri fyrri, Sex and the City tvö, fremur lága einkunn, eða þrjár stjörnur, en hann viðurkennir fúslega að hann teljist varla hluti af markhópi myndarinnar, og líklegast hefur hann þar hárrétt fyrir sér. „Partur af mér langar auðvitað til að kýla þessa mynd í gólfið og gefa henni botneinkunn en ég get ómögulega hatað hana nógu mikið. Hún fer meira í taugarnar á mér og ég neita að sitja yfir henni aftur. Skal miklu frekar horfa aftur á New Moon,“ segir Tommi, en þið getið lesið umfjöllun hans með því að smella hér.

Hin myndin er hin ærslafulla mynd Get him to the Greek, sem Tommi er talsvert hrifnari af og gefur einar 7 stjörnur. „Ekki bara ætla ég að ráðleggja fólki að sjá myndina, heldur mæli ég með að hún og Sarah Marshall verði teknar fyrir í röð. Þetta eru skemmtilegar, fyndnar, grófar en samt óvenju notalegar systkinamyndir sem eru einnig blessunarlega ólíkar. Greek er að vísu ekki alveg eins góð og Marshall, en hún haltrar ekki langt á eftir.“

Hér má sjá umfjöllun Tomma um myndina.

Jonah Hill og Russel Brand á flótta undan P. Diddy, eða Sean Combs, sem er stórskemmtilegur í myndinni.