Paranormal Activity 4 fær útgáfudag

Nei ég hitti ekki á vitlausan tölustaf. Í október síðastliðnum spruttu upp þeir orðrómar að fjórða Paranormal Activity myndin væri ekki svo ólíkleg þar sem sú þriðja þénaði u.þ.b. samanlagðar tekjur beggja forvera hennar. Nú fyrr í vikunni staðfesti Paramount Pictures að fjórða myndin væri svo sannarlega á leiðinni í framleiðslu og gáfu síðan út í dag opinberan útgáfudag hennar á komandi ári. Fyrir okkur Paranormal-aðdáendurnar á Íslandi er þetta afskaplega súrsætt þar sem þriðja myndin mun ekki ná hingað í bíó og samkvæmt heimasíðu hennar hefur DVD/Blu-Ray diskurinn ekki enn fengið útgáfudag.

Að svo stöddu hefur ekkert verið gefið upp um fjórðu myndina hvað varðar mannskap eða handrit, en það verður ansi áhugavert að sjá hvert saga seríunnar stefnir næst. Sjálfur hef ég ekki ennþá séð þriðju myndina, en ég veit svo mikið að hún gerist á þeim tíma sem ég vil kalla óhugnulegasta atriði fyrstu myndarinnar; barnæsku systranna sem myndirnar hafa hingað til einblínt á. Það sem situr þó ekki vel í mér er sá möguleiki að þriðja myndin endi söguna vel og að fjórða myndin verði ekkert nema peningasvindl; Guð má vita að það yrði ekki í fyrsta skiptið.

Paranormal Activity 4 er væntanleg þann 19. október næstkomandi.