Keppir mögulega við sjálfa sig

Mikið er rætt og ritað þessi dægrin um hina sannsögulega kvikmynd Bombshell, sem fjallar um Fox sjónvarpsstöðina í Bandaríkjunum og ásakanir nokkurra kvenna sem þar unnu, á hendur stofnenda hennar Roger Ailes, en þær sökuðu hann um kynferðislega áreitni. Byrjað er að sýna myndina á forsýningum í Bandaríkjunum.

Kvikmyndin verður frumsýnd hér á Íslandi á nýja árinu, nánar tiltekið 10. janúar nk.

Charlize Theron, Nicole Kidman og Margot Robbie í hlutverkum sínum.

Mikið er til dæmis rætt um frammistöðu Charlize Theron í hlutverki Fox News fréttalesarans Megyn Kelly, en einnig hafa margir talað um Margot Robbie í hlutverki Kayla Pospisil. Sá munur er á hlutverkum Theron og Robbie að hlutverk Theron er byggt á raunverulegri persónu, en persónan sem Robbie leikur er skálduð.

Í Hollywood eru menn byrjaðir að spá fyrir um hverjir fái tilnefningar til Óskarsverðlauna, sem veitt eru í lok febrúar ár hvert, og þar kemur nafn Robbie meðal annars við sögu, fyrir hlutverkið í Bombshell. Vandinn er sá að nafn hennar hefur nú þegar verið nefnt vegna frammistöðu hennar í hlutverki Sharon Tate í Once Upon a Time in Hollywood, eftir Quentin Tarantino. Spurningin er því: er hún nú komin í samkeppni við sjálfa sig?