Órói vann í Kristiansand

Íslenska unglingamyndin Órói vann á dögunum til alþjóðlegra kvikmyndaverðlauna sem kennd eru við Don Kíkóta. Kvikmyndin Fish Tank vann keppnina í fyrra og fór eftir sigurinn í dreifingu um allan heim. Skemmst er að minnast þess að Órói var einnig valin besta íslenska myndin á Kvikmyndaverðlaunum Mynda mánaðarins og Kvikmyndir.is sem haldin voru fyrr á þessu ári.

Órói eða Jitters eins og hún heitir á ensku hefur þegar verið dreift til tíu landa auk þess sem hún hefur verið valin til sýninga á fjölda alþjóðlegra kvikmyndahátíða, þar á meðal á kvikmyndahátíðinni í Cannes.
Myndin fjallar um sextán ára samkynhneigðan pilt sem reynir að fóta sig í lífinu.

Órói var opnunarmyndin á hátíðinni í Kristiansand en kvikmyndahátíðin í Kristiansand er stærsta kvikmyndahátíð á Norðurlöndum en hún sérhæfir sig í kvikmyndum fyrir ungt fólk. Alls voru sýningar á myndinni fjórar talsins og svöruðu aðstandendur hennar spurningum áhorfenda að loknum sýningum.

Myndin var frumsýnd í Sambíóunum í október á síðasta ári.

Með helstu hlutverk fara Atli Óskar Fjalarsson, Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm, Haraldur Ari Stefánsson, Elías Helgi Kofoed-Hansen, Birna Rún Eiríksdóttir, María Birta Bjarnadóttir, Kristín Pétursdóttir og Vilhelm Þór Neto.

Með önnur hlutverk í kvikmyndinni fara; Þorsteinn Bachmann, Katla Þorgeirsdóttir, Gísli Örn Garðarsson, Bergur Þór Ingólfsson og Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir.

Handritið er skrifað af Ingibjörgu Reynisdóttur og Baldvin Z sem er einnig leikstjóri myndarinnar.

Framleiðendur eru Júlíus Kemp og Ingvar Þórðarson fyrir Kvikmyndafélag Íslands.

Stikk: