Uglurnar fljúga hæst á Íslandi

Það gerist sjaldan að mynd sem er í þriðja sæti á frumsýningarhelgi sinni nái toppsætinu vikuna á eftir, en það gerðist á Íslandi um nýliðna helgi, þegar teiknimyndaævintýrið Legend of the Guardians, eða Konungsríki Uglanna, eins og verkið heitir á hinu ástkæra ylhýra, skellti sér í toppsæti aðsóknarlista íslenskra bíóhúsa.

Nánast jafnmargir fóru á myndina um aðra helgina og þá fyrstu, eða í kringum 1.700 manns, sem skilaði tekjum upp á um 1,6 milljónir króna. Dugði það til að hnika The Social Network af toppnum eftir tveggja vikna setu þar, auk þess sem nýju myndirnar um helgina náðu ekki að skáka þessum tveimur. Slægjuhasarinn Machete komst næst því, með tæplega 1,4 millur í kassann, eða um 1.350 áhorfendur. Íslenska unglingadramað Órói var svo fjórða í röðinni og skellti sér yfir 10.000 áhorfenda markið. Vampírumyndin Let Me In náði ekki að fylgja eftir glimrandi dómum með jafngóðri aðsókn og endaði í fimmta sæti, rétt á undan teiknimyndinni Happily N’Ever After 2, en báðar myndir fengu tæpa milljón í kassann, þó Happily… fengi fleiri áhorfendur.

Raunar var aðsókn afar jöfn um helgina og hefði aðsókn á myndina í 17. sæti, Furry Vengeance, skilað henni á topp 10-listann fyrir um tveimur mánuðum, þar sem lítill munur var á milli hverrar myndar á listanum.

Hvaða myndir fóruð þið á um helgina? Hvernig fannst ykkur? Og kemur toppmyndin ykkur á óvart?

-Erlingur Grétar