Neeson skoðar gamlan leigumorðingja

Írski leikarinn Liam Neeson á nú í viðræðum um að leika í glæpa spennutryllinum The All Nighter ( einnig þekkt sem Run All Night ), samkvæmt heimildum vefmiðilsins TheWrap.

Myndin á að fjalla um leigumorðingja sem er farinn að eldast, en til að vernda eiginkonu sína og son, þá þarf hann að kljást við fyrrum vinnuveitanda sinn. Hann endar síðan með því að þurfa að fara á flótta undan mafíunni og yfirvöldum, ásamt syni sínum.

Myndin er framleidd af Roy Lee hjá Vertigo Entertainment, ásamt Brooklyn Weaver hjá Warner Bros. Warner keypti kvikmyndaréttinn af spennusögunni The All Nighter í janúar sl. fyrir háar fjárhæðir.

Næstu myndir Neesons eru Non-Stop og A Walk Among The Tombstones. Hann talar einnig fyrir legókall í myndinni Lego: The Piece of Resistance. 

Roy Lee vinnur að ýmsum spennandi verkefnum, þar á meðal á endurgerð Spike Lee á Suður Kóreska spennutryllinum Oldboy. Tökur standa nú yfir á þeirri mynd.