Þriðja sería Ófærðar frumsýnd á Netflix

Glæný þáttaröð spennuseríunnar Ófærð (e. Trapped) verður afhjúpuð á Netflix árið 2021, en þetta tilkynnti streymisrisinn í dag.

Þessi þriðja þáttaröð, sem rétt er að kalla eins konar „spin off“, mun bera erlenda heitið Entrapped. Atburðarásin gerist tveimur árum eftir atburði síðustu seríu og verða þau Ólafur Darri Ólafsson og Ilmur Kristjánsdóttir á sínum stað. Með önnur hlutverk fara Egill Ólafsson, Hannes Óli Ágústsson, Haraldur Stefánsson, Auðunn Lúthersson og danski leikarinn Thomas Bo Larsen.

Ófærð kemur upphaflega úr smiðju Baltasars Kormáks, RVK Studios og var fyrsta þáttaröð frumsýnd árið 2015. Í þáttunum er fylgst með Andra Ólafssyni (Ólafur Darri), lögreglustjóra í afskekktum bæ á Íslandi, sem rannsakar morð á fyrrverandi bæjarbúa, en sjómenn finna limlest lík hans. Í annarri þáttaröð er reynt að ráða iðnaðarráðherra af dögum á Austurvelli og Andra er falið að stýra rannsókn málsins sem leiðir hann á kunnugar slóðir norður á landi. 

Framleiðsla annarrar seríu var umfangsmeiri en á þeirri fyrri og kostnaður meira en milljarður króna.

Úr ‘Entrapped’ (2021) – Stilla: Netflix

Entrapped er þó ekki eina íslenska sjónvarpsserían sem RVK Studios vinnur að í samstarfi við Netflix, hin er spennuþáttaröðin Katla sem búast má við á næsta ári.

Katla gerist einu ári eft­ir gos í (viti menn) Kötlu. Líf bæj­ar­búa í friðsæla smá­bæn­um Vík hefur breyst mikið og neyðast þeir til að yf­ir­gefa bæ­inn því jök­ull­inn ná­lægt eld­fjall­inu byrj­ar að bráðna. Þeir ör­fáu íbú­ar sem eft­ir eru ná að halda sam­fé­lag­inu gang­andi og þrátt fyr­ir frá­bæra staðsetn­ing­u er bær­inn nán­ast orðinn að drauga­bæ. Dul­ar­full­ir hlut­ir sem frusu djúpt inn í jök­ul­inn fyr­ir löngu koma nú í ljós og hafa ófyr­ir­séðar af­leiðing­ar.

Einnig má geta þess að íslenska þáttaröðin Brot hefur notið gífurlegra vinsælda á streymi Netflix víða um heim.