Lynch er nýr 007 – tekur við af Daniel Craig

Nú um helgina var greint frá því opinberlega að búið væri að finna arftaka Daniel Craig í hlutverki njósnara hennar hátignar, James Bond, eða 007. Arftakinn er leikkonan Lashana Lynch, en sagt er að hún muni koma við sögu í næstu James Bond kvikmynd, Bond 25, og muni svo í framhaldinu taka við keflinu af Craig.

Lashana Lynch sem Maria Rambeau í Captain Marvel.

Lítið er vitað um myndina enn um sinn, en sagt er að persónan muni í myndinni leggja byssuna og smókinginn á hilluna sem verður til þess að yfirmaður 007, M, þurfi að finna annan njósnara til að bera 007 númerið.

Myndin verður frumsýnd 8. apríl 2020 um heim allan, þar á meðal hér á Íslandi. Leikstjóri er True Detective leikstjórinn Cary Joji Fukunaga og handrit skrifar Phoebe Waller-Bridge.

View this post on Instagram

Cat’s finally outta the bag! #BOND25

A post shared by Lashana Lynch (@lashanalynch) on

Lynch ætti að vera Marvel aðdáendum að góðu kunn, en hún lék hlutverk Maria Rambeau í Captain Marvel á móti Brie Larson. Lynch verður fyrsta konan og fyrsti þeldökki leikarinn til að leika 007.