Nicolas Cage leikur í hamfaramynd

cageÓskarsverðlaunahafinn Nicolas Cage hefur verið ráðinn í nýja náttúruhamfaramynd, The Humanity Project, eða Mannkynsverkefnið, í lauslegri íslenskri þýðingu. Um er að ræða vísindaskáldsögu sem gerist árið 2030, þegar loftslagsbreytingar hafa gert mikinn usla á Jörðinni, og miðvesturríki Bandaríkjanna hafa verið dæmd óbyggileg.

Ríkisstofnunin sem hefur með þessi mál að gera flytur fólk með valdi í nýlenduna New Eden. Cage leikur mann sem reynir að koma í veg fyrir brottflutning einhleyprar móður ( Sarah Lind ) og sonar hennar ( Jakob Davies ).

Leikstjóri er Rob King og handrit skrifar Dave Schultz. Tökur hefjast í bresku Kólumbíu í næstu viku.

Kvikmyndir sem fjalla um náttúruhamfarir af völdum loftslagsbreytinga hafa verið gerðar þónokkrar í gegnum tíðina. Þar má nefna myndir eins og Bruce Dern myndina Silent Running frá því snemma á áttunda áratugnum, Soylant Green frá árinu 1973, Waterworld frá 1995, The Core frá 2003, The Day After Tomorrow frá 2004, Children of Men frá 2006, Wall-E frá 2008 og 2012 frá 2009.

Þá má minnast á Mad Max myndir George Miller en þær gerast í heimi eftir allsherjarstyrjöld, þar sem fólk reynir að lifa af í uppþornaðri veröld. Að lokum má geta Interstellar eftir Christopher Nolan, en í henni var Jörðin orðin óbyggileg og rykstormar gerðu mönnum lífið leitt, sem leiddi til þess að menn urðu að leita að nýrri plánetu fyrir mannkynið.