Cage leitar að ræningjum

Bandaríski kvikmyndaleikarinn Nicolas Cage er þekktur fyrir að vera ekkert alltof upptekinn af því að handrit þeirra mynda sem hann velur að leika í þurfi endilega að vera frábær, þó auðvitað hafi hann leikið í mörgum mjög góðum myndum í gegnum tíðina.

Deadline vefsíðan greinir frá því að Cage hafi samþykkt að leika í mynd sem kallast Tokarev, eftir leikstjórann Paco Cabezas, sem hefur einkum unnið á Spáni, en Tokarev er fyrsta myndin sem Cabezas gerir í Bandaríkjunum.

Jim Agnew og Sean Keller skrifa handritið sem fjallar um Paul Maguire, sem Cage leikur, sem er fyrrum glæpamaður sem snúið hefur baki við afbrotum. Rússneska mafían rænir dóttur hans, og nú safnar hann saman gamla glæpagenginu sínu og fær það til að hjálpa sér að finna dótturina.

Hljómar smá eins og Taken í bland við einhverja aðra Cage spennutrylla …

Ekki er vitað enn hvenær tökur hefjast.

Tokarev er nafnið á rússnesku byssuskothylki, sem gefur sterka vísbendingu um að það gætu orðið einn til tveir byssubardagar í myndinni.