Eddie Izzard ánægður með uppistand Ara

Breski leikarinn og uppistandarinn Eddie Izzard segir Íslendinga vera með góðan húmor og fullyrðir að uppistand Ara Eldjárns á Netflix, Pardon my Icelandic, sé sönnun fyrir því.

Lof þetta birti Izzard á Twitter-síðu sinni þegar hann deildi tísti Ara um sýninguna vinsælu. Grínarinn, líkt og margir vita, er mikill Íslandsvinur og af mörgum talinn fyndnasti maður Bretlands.

„Ég hef oft haldið uppistandssýningar á Íslandi og að mínu mati hefur þetta fólk frábæran húmor. Hér kemur sönnun,“ segir Izzard. 

Pardon my Icelandic lenti á streymið í byrjun desembermánaðar og hefur verið að trekkja upp fínar tölur og gott umtal almennt. 

Hér má sjá nokkur brot úr sýningunni.