Vill að Naomi Watts vinni Óskarinn

Reese Witherspoon vill að Naomi Watts vinni Óskarsverðlaunin fyrir leik sinn í The Impossible.

Í opnu bréfi sínu til Watts skrifar Witherspoon, sem fékk Óskarinn fyrir hlutverk sitt í Walk the Line, að The Impossible hafi hreyft við henni og hún vonar að Watts hljóti allar þær viðurkenningar sem Hollywood hefur upp á að bjóða fyrir frammistöðu sína.

„Þetta er ein besta mynd sem ég hef séð á ævinni. Ég gat ekki talað í 24 klukkustundir eftir að hafa séð hana,“ skrifaði hún og bætti við að leikur Watts hafi verið þungamiðjan í myndinni. Einnig líkti hún Watts við leikkonurnar Meryl Streep og Sally Field.

Watts hefur þegar verið tilnefnd til Golden Globe– og Screen Actors Guild-verðlaunanna fyrir hlutverkið í myndinni. Óskarstilnefningarnar verða tilkynntar í janúar.

The Impossible fjallar um fjölskyldu sem lendir í flóðbylgjunni miklu sem gekk yfir Suðaustur-Asíu.