Fyrsta myndin af Ian McKellen í hlutverki Sherlock Holmes

holmesBreski leikarinn Sir Ian McKellen mun leika hlutverk frægasta spæjara heims, Sherlock Holmes, í væntanlegri mynd leikstjórans Bill Condon, Mr. Holmes. Í gær var sýnd fyrsta myndin af honum, sem má sjá hér til vinstri, í hlutverki spæjarans og má með sanni segja að hann beri hattinn vel.

Í myndinni mun McKellen leika Holmes á síðari árum ævi sinnar, skiljanlega. Þessi saga sem myndin verður gerð eftir, var ekki skrifuð af Arthur Conan Doyle, höfundi sagnanna um Sherlock Holmes, heldur er þetta kvikmyndagerð á skáldsögu frá 2006 eftir Mitch Cullin.

Sagan hefst þar sem spæjarinn er orðinn 93 ára, löngu hættur störfum og fluttur uppi í sveit í Sussex, þar sem óleyst mál frá því fyrir hálfri öld síðan, poppar upp.

Félagi hans, Dr. Watson, er ekki lengur við hlið hans, og andleg skerpa Holmes er ekki lengur sú sama og áður.

McKellen og Condon unnu síðast saman að Gods and Monsters, en McKellen var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í myndinni, sem var hlutverk leikstjóra kvikmyndanna Frankenstein og Bride of Frankenstein, James Whale.

Mr. Holmes er væntanleg í kvikmyndahús á næsta ári.