Nýtt plakat: Girl With The Dragon Tattoo

Það styttist óðum í bandarísku útgáfuna af fyrstu bókinni í Millenium-þríleiknum eftir Stieg Larsson í leikstjórn meistarans David Finchers og hefur loks verið gefið út nýtt plakat fyrir myndina. The Girl With The Dragon Tattoo er níunda leikna mynd meistaralega leikstjórans og hefur nýlega verið fjallað ákaft um gerð hennar og eru væntingarnar háar. Daniel Craig fer með aðalhlutverk myndarinnar sem blaðamaðurinn Mikael Blomkvist í leit að konu sem hefur ekki sést í fjörutíu ár. Í rannsóknina blandast hin einkennilega Lisbeth Salander, hakkari, sem hjálpar honum í leitinni. Nýbökuðu óskarsverðlaunahafarnir Trent Reznor og Atticus Ross hafa snúið aftur til að semja tónlist myndarinnar. Myndin er væntanleg á klakann þann 6. janúar.

Það lítur allt út fyrir að útgáfa Finchers sé harðsoðnari en sú sænska, Rooney Mara var jafnvel valin í hlutverk Lisbethar fram yfir aðrar leikkonur á borð við Scarlett Johansson sem var talin of kynþokkafull fyrir hlutverkið. Einnig kom fram um helgina að Fincher væri tilneyddur til að klippa burt circa 40 mínútur úr bíóútgáfu myndarinnar(væntanlega fá áhorfendur líklega þá djúsí leikstjóraútgáfu á DVD).

Sjálfum finnst mér þetta vera frekar töff plakat. Hvað finnst ykkur um nýja plakatið?