Útlagar verða hetjur í Syndaborginni

Framhaldsmyndin Sin City: A Dame To Kill For verður frumsýnd þann 22. ágúst næstkomandi, en í dag var sýnd ný stikla úr myndinni sem segir frá útlögunum í Syndaborginni og hvernig þau ætla að ná fram hefndum á yfirvaldinu.

Myndin er líkt og sú fyrri byggð á teiknimyndasögu eftir Frank Miller og leikstýrt af Robert Rodriguez. Í þessari mynd eru tvær myndasögur settar saman í eitt, annarsvegar úr annarri bók Miller sem ber sama nafn og titill myndarinnar og hinsvegar sögunni Just Another Saturday Night.

mickey-rourke-sin-city-a-dame-to-kill-for

Illmennin í myndinni þurfa að kljást við útlaga sem hafa safnað liði og ætla að hefna fyrir þau illskuverk sem þeir hafa unnið gegn þeim.

Leikarinn Stacy Keach, sem vann síðast með Rodriguez í myndinni Machete, mun leika mafíuforingjann Wallenquist, sem er lýst sem aðal illmenni myndarinnar, og eina manninum sem ekki er hægt að frelsa í Syndaborginni. Margir muna einnig eftir öldungardeildarþingmanninum Roark úr fyrri myndinni, en hann er leikinn af Powers Boothe.

Það ættu einnig margir að kannast við aðalsöguhetjurnar í Syndaborginni og má þar nefna hinn grjótharða Marv, sem er leikinn af Mickey Rourke. Leikkonan Jessica Alba mun einnig fara hamförum í myndinni sem Nancy Callahan, en hún er í hefndarhug vegna andláts persónu Bruce Willis í fyrri myndinni.

Framhaldsmyndin er einnig stútfull af nýjum persónum og má sjá leikaranna Joseph Gordon-Levitt og Ray Liotta í hlutverkum sínum. Josh Brolin fer með hlutverk Dwight, sem var þó áður leikinn af Clive Owen í fyrri myndinni.

Hér að neðan má sjá nýjustu stikluna úr myndinni.