Alba fækkar fötum í Sin City 2

Nýjustu myndirnar úr Sin City: A Dame To Kill For voru opinberaðar á heimasíðu Entertainment Weekly í dag og má þar sjá Mickey Rourke og Jessica Alba, sem endurtaka hlutverk sín úr fyrri myndinni.

Jessica Alba gerði garðinn frægan í hlutverki sínu sem fatafellan Nancy Callahan í fyrstu myndinni um Syndaborgina. Callahan var hluti af sögu lögreglumannsins Hartigan, sem bjargaði henni í æsku frá hinum ógeðfellda Roark Jr., sem seinna varð að Gula skrípinu.

,,Söguþráður Nancy er sjálfstæður, svo það var ekki mikið til þess að byggja á. Það var því sannur heiður að fylgjast með Robert Rodriguez og Frank Miller byggja fléttu út frá persónu Nancy.“ sagði Alba í viðtali á dögunum og hélt áfram ,,Seinustu ár höfum við talað um að gera aðra mynd en ekkert gerst og velt fyrir okkur hvenær næsta mynd yrði gerð. Þegar tökur hófust þá velti ég fyrir mér, er ég virkilega hér? Er þetta að gerast?“ sagði Alba að lokum.

sin-city-2

Rourke kom sér aftur í sviðsljósið fyrir frammistöðu sína sem hinn eiturharði Marv og af myndinni að dæma þá hefur hann ekkert mýkst með árunum. Joseph Gordon-Levitt sést einnig á myndinni með Rourke og er þar frekar eymdarlegur.

sincity2

Kvikmyndirnar eru byggðar á teiknimyndasögum Frank Miller og fékk hann að sjá afraksturinn á dögunum ásamt leikstjóranum Robert Rodriguez. Leikstjórinn sagði að Miller hafi ekki verið með neinar athugasemdir og fór hann frekar að ræða um að gera þriðju myndina.

Sin City: A Dame To Kill For er væntanleg í kvikmyndahús í ágúst á þessu ári.