Hver leikstýrir The Twilight Zone?

Warner Brothers eru nú að vonast eftir að ýta af stað nýrri kvikmyndaútgáfu af sjónvarpsþættinum klassíska The Twilight Zone. Sagðir vera í viðræðum við Warners eru Michael Bay (Transformers), Rupert Wyatt (Rise of the Planet of the Apes), David Yates (Harry Potter 5-8) og síðast en ekki síst Christopher Nolan (The Dark Knight).

Þættirnir sem skapaðir voru af Rod Sterling eiga sér langa sögu, hófu göngu sína árið 1959 og gengu í fimm ár. Þættirnir voru ekki framhaldsþættir af hefðbundinni gerð, heldur var sýnd ný drungaleg saga í hverri viku, sem oft tengdist einhverju yfirnátturulegu, og innihélt oftar en ekki „tvist“ í endann. Smám saman hafa þættirnir öðlast költ status og ekki gleymst í áranna rás eins og svo margt annað. Tvisvar hafa verið framleiddar nýjar seríur byggðar á þeim, frá 1985-1989 og svo frá 2002-2003. Kvikmynd sem bar nafnið The Twilight Zone var gerð árið 1983, og í henni voru fjórar mismunandi sögur kynntar til leiks, hver eftir sinn leikstjórann. Það voru ekki síðri nöfn sem komu að þeirri mynd; Steven Spielberg, John Landis, Joe Dante og George Miller. Núverandi öfl í Hollywood finnst það hinsvegar ekki smart að gera slíka mynd, og eru því eðli málsins samkvæmt bara að leita að einum leikstjóra.

Hver er líklegur í þetta? Við getum aðeins giskað, en fyrst myndi ég útiloka Michael Bay, einfaldlega vegna þess að þetta efni á ekki saman við hans styrkleika í kvikmyndagerð á neinn hátt, hávær hasaratriði. Auk þess er hann með litla hasarmynd í kjölvatninu sem hann er búinn að vera að bíða eftir að koma í gang, Pain & Gain, og vill eflaust ekki fresta henni aftur fyrir stærri verkefni.

Christopher Nolan getur gert hvað sem hann vill, og þó að Warners sé orðið heimastúdíóið hans hefði ég haldið að hann hefði meiri áhuga á að gera fleiri „upprunalegar“ myndir, a la Memento og Inception þegar Batman ævintýrinu líkur. Svo er alltaf þessi Howard Hughes mynd sem hann hefur talað um í nokkur ár annað slagið.

David Yates er heldur ekki líklegur til að fara neitt frá Warners á næstunni eftir að hafa mjólkað gullkálf þeirra ærlega síðustu fimm árin. Hann gæti haft áhuga á þessu verkefni, en gæti líka verið upptekinn af því að aðlaga The Stand eftir Stephen King, sem tilkynnt var að hann og Potter handritshöfundurinn Steve Kloves myndu gera bráðlega.

Þá er bara eftir Rupert Wyatt, reynsluminnsti leikstjórinn af þessum fjórum. Efnið gæti eflaust átt vel við hann, en hann gæti líka verið upptekinn af því að framleiða nýja „Planet of the Apes“ mynd með Fox. Þanig að hver veit? Myndin yrði allavega áhugaverð í höndum hvers og eins af þessum leikstjórum…