Leikstjórinn Lars von Trier í vandræðum

Danski leikstjórinn Lars von Trier er enn og aftur í fréttunum vegna yfirlýsinga hans á blaðamannafundi á Cannes kvikmyndahátíðinni í maí síðastliðnum. Fyrir þá sem ekki vita, þá lýsti leikstjórinn því yfir, í miðjum blaðamannafundi fyrir nýju mynd sína Melancholia, að bæði væri hann nasisti og að hann „fyndi svolítið til með Hitler.“ Í kjölfarið var honum bannað að sækja hátíðina meir og var hann kærður fyrir brot á frönskum lögum sem segja að það sé ólöglegt að réttlæta stríðsglæpi.

Í morgun var hann yfirheyrður af dönsku lögreglunni varðandi yfirlýsingarnar, en að yfirheyrslunni lokinni sór von Trier að hann myndi aldrei framar veita viðtöl eða gefa opinberar yfirlýsingar: „Vegna þessara alvarlegra ásakanna hef ég uppgvötað að ég get ekki lengur tjáð mig á ótvíræðan hátt og hef því ákveðið að héðan í frá mun ég forðast allar opinberar yfirlýsingar og viðtöl.“

Stuttu eftir blaðamannafundinn baðst hann afsökunnar og sagði að þetta væri allt til að fá meiri athygli að myndinni sinni. Hins vegar, eftir að hann var kærður og yfirheyrður dró hann afsökunarbeiðnina til baka.