Gibson verður tattúmeistari í Hangover 2

Ástralski stórleikarinn og leikstjórinn Mel Gibson, sem hefur einkum verið í sviðsljósinu undanfarið vegna vandræða í einkalífinu, mun fara með hlutverk húðflúrmeistara í framhaldinu af gamanmyndinni Hangover.

Heimildir Hollywood Reporter fréttveitunnar herma að hlutverkið sé mikilvægt fyrir söguna í myndinni, en í atriðinu með Gibson fer einn af aðalleikurunum að fá sér húðflúr þegar svallið stendur sem hæst.

Í Hangover 2 mæta þeir aftur á svæðið þeir Zach Galifianakis, Bradley Cooper, Ed Helms og Justin Bartha, en þeir voru allir í aðalhlutverkum í fyrri myndinni sem kom út í fyrra, en í þeirri mynd fer steggjapartí í Las Vegas illilega úr böndunum með hlægilegum afleiðingum.

Hangover 2 gerist í Bangkok í Tælandi. Leikstjóri verður Todd Philips, líkt og í fyrri myndinni.

Dagblaðið The New York Post segir að Gibson muni taka sitt atriði bráðlega í Warner Bros stúdíóinu í Hollywood.

Næsta mynd Gibsons heitir Beaver og er gamanmynd leikstýrt af Jodie Foster. Frumsýningu þeirrar myndar hefur verið frestað vegna deilna sem Gibson stendur í við fyrrum kærustu sína og barnsmóður.