Kvikmyndahús sýnir börnum Saw

Það er í eðli mannsins að gera mistök en stundum eru þessi mistök aðeins óheppilegri en önnur. Fréttasíðan WHDH greinir frá því að kvikmyndahús í Massachusetts í Bandaríkjunum hafi sýnt fullum sal barna nýjustu hrollvekjuna í Saw-seríunni, Saw 3D. Börnin héldu öll að þau voru að fara að sjá Megamind, ævintýramynd sem skartar þeim Will Ferrell og Brad Pitt í aðalhlutverkum, en þeim brá heldur betur þegar opnunaratriðinu í Saw 3D var varpað á tjaldið.

Að vitaskuld voru foreldrar ekki par sáttir með það, en starfsmenn kvikmyndahússins voru fljótir að leiðrétta mistökin þegar upp komst um þau. Eitt foreldrið lét hafa eftir sér, „Skaðinn var skeður. Strákurinn minn kom upp í til mín um nóttina og var lafhræddur, hann gat ekki sofið“. Börnin fengu öll frímiða í bíó í skaðabætur, en við skulum vona að þau fái að sjá rétta mynd í það skiptið.

– Bjarki Dagur