Sjö bestu fjar-sambandsmyndirnar

Going The Distance með þeim Drew Barrymore og Justin Long er nú í bíó hér á Íslandi, en myndin fjallar um par sem býr í sitthvorum hluta Bandaríkjanna og er að reyna að láta sambandið ganga upp. Það er gaman að segja frá því að Tómas Valgeirsson aðalgagnrýnandi kvikmyndir.is gaf myndinni 8 stjörnur af 10 mögulegum í umfjöllun um myndina hér á síðunni.

En nóg um það. Þetta er ekki fyrsta myndin um par í fjar-sambandi. Hér á eftir kemur listi yfir „bestu“fjar – sambands – myndirnar:

1. The Lake House

Þau gerast varla meiri fjar – sambönd en sambandið sem þau Sandra Bullock og Keanu Reeves standa í í þessari mynd, en sambandið fer fram á mismunandi tíma og þau eiga samskipti í gegnum póstkassa.

2. Must Love Dogs

Fráskilin kona prófar að fara á stefnumótasíðu á netinu í fyrsta skipti, og hittir mann sem gæti orðið hennar sálufélagi og sanna ást. En hvernig endar svo sagan?

3. You´ve Got Mail

Stundum kölluð Sleepless in Seattle 2, þar sem þarna leiða saman hesta sína á nýjan leik þau Meg Ryan og Tom Hanks, í rómantískri gamanmynd.

Í myndinni leika þau keppinauta í bókabransanum en eiga í ástarsambandi í gegnum tölvupóst, án þess að vita hver þau eru í raun. Nú er það spurningin hvort þau geti elskast þegar þau komast að því að hún er sú sem hún er og hann er sá sem hann er.

4. The Holiday

Cameron Diaz og Kate Winslet skiptast á húsum í stuttan tíma og í kjölfarið fellur Diaz fyrir Jude Law og Winslet fyrir Jack Black.

Þessi mynd er með 8,31 í einkunn hér á kvikmyndir.is en 6,9 á IMDB.com.

5. Ghost

Þetta er sígild ástarsaga. Patrick Swayze heitinn og Demi Moore sanna það í þessari mynd að ástin þekkir engin takmörk og þau elskast yfir gröf og dauða – þ.e. hann er látinn en hún er lifandi. Þetta tekst allt með hjálp miðils sem Whoopi Goldberg leikur.

6. The Notebook

Kannski er þetta rómantískasta mynd sem gerð hefur verið á þessari öld.
Fátækur en ástríðufullur ungur maður verður ástfanginn af efnaðri ungri konu, og hjálpar henni að finna ákveðið frelsi. Þeirra leiðir skilja þó fljótlega vegna mismunandi félagslegra aðstæðna þeirra.

7. Sleepless in Seattle

Sígild mynd sem stenst algjörleg tímans tönn og hægt er að horfa á aftur og aftur. Þetta er saga um tvær manneskjur sem finna hvort annað og verða ástfangin í gegnum útvarpsþátt, blaðagrein og fleira.

Eru þetta bestu fjar- sambandsmyndirnar? Hvað finnst ykkur?

Þóroddur Bjarnason