Kick-Ass 2 fer í tökur í sumar

Myndasöguhöfundurinn Mark Millar átti innihaldsríkt viðtal við Daily Record fyrir stuttu, þar sem hann talaði meðal annars um það að tvær myndir, byggðar á eigin verkum, færu í tökur núna í sumar. Önnur þeirra er Kick-Ass 2, og þykja þær fréttir býsna merkilegar þar sem enn er óvíst um hver muni leikstýra henni. Matthew Vaughn hefur ekki beinlínis útilokað möguleikann, en hann telur ólíklegt að hann snúi aftur (kannski framhaldið af X: First Class hafi eitthvað um það að segja), þótt hann verði auðvitað áfram framleiðandi.

Millar talaði líka um aðra myndasögu sem er verið að gera bíómynd úr, og hún ber furðulega heitið American Jesus. Millar segir að sú saga sé eins og „andstæðan við The Omen, þar sem fjallað er um strák sem fattar að hann er Jesús í nútímanum.“

Ekki er vitað neitt mikið meira um framleiðsluna á þeirri mynd, alveg eins og það er heldur ekki vitað mikið meira um Kick-Ass 2, annað en að undirbúningurinn sé kominn nokkuð langt. Til dæmis er ekkert búið að tilkynna um hvaða leikarar munu taka þátt, en reiknað er með því að Aaron Johnsson (Kick-Ass), Christopher Mintz-Plasse (Red Mist) og Chloe Moretz (Hit-Girl) fari aftur í gömlu búninganna þar sem persónur þeirra skipta framhaldssögunni heilmiklu máli. Og aðdáendur fyrri myndarinnar yrðu nett brjálaðir ef þeir myndu ekki mæta aftur til leiks (sérstaklega Moretz, sem eldist hins vegar hratt).