Vaughn leitar að nýjum Kick-Ass leikstjóra

Matthew Vaughn fékk ekki lítið lof þegar hann kynnti heiminum fyrir einni djörfustu og siðlausustu „ofurhetjumynd“ síðustu ára, og að hugsa til þess að hann ætli ekki að leikstýra framhaldsmyndinni hljómar næstum því jafnfúlt og ef Kenneth Branagh myndi ekki gera aðra Thor-mynd.

Nei, alveg rétt. Andskotinn!

Vaughn (alveg eins og Branagh reyndar) setti fullkomlega sinn eigin stimpil á öðruvísi myndasöguefni, en þó svo hann muni ekki leikstýra Kick-Ass 2, þá mun hann vissulega gegna hlutverki framleiðanda. Og það virðist vera að maðurinn sé að skoða í kringum sig í leit að nýjum leikstjóra.

MTV tók viðtal við Jane Goldman, sem skrifaði handritið að fyrri Kick-Ass-myndinni (ásamt Vaughn), og þar sagði hún að hvorki hún né leikstjórinn höfðu hingað til planað að skrifa handritið að næstu mynd. Þetta er það sem hún hafði að segja:

(Í sambandi við það að skrifa framhaldsmyndina)

„Það er mjög freistandi. Við skemmtum okkur konunglega þegar við unnum að fyrri myndinni. Þetta var æðislegt fólk sem vann að henni og ég myndi glaðlega vilja vinna með þeim aftur. Ég veit ekki alveg ástæðuna en Matthew segist að minnsta kosti ætla ekki að snúa aftur í leikstjórastólinn.“

(aðspurð að því hvort framhald væri í rauninni nauðsynlegt)

„Sko, ég elska seinni bókina sem Mark Millar skrifaði. Framhaldið er stórkostlegt, en hvort að bíómyndin sjálf sem við gerðum þurfi á framhaldi að halda, þar er ég á báðum áttum.“

Hvað finnst þér?
Á að slútta þessu fyrst Vaughn hefur engan áhuga að snúa aftur?
Hefur einhver hérna lesið seinni bókina? (hún er alveg skemmtilega brútal, miklu meira svo heldur en hin)