Marsbúinn enn á toppnum – 430 milljónir í tekjur

Engri nýrri mynd tókst að velta The Martian af toppnum yfir aðsóknarmestu myndir helgarinnar í Norður-Ameríku. matt-damon-the-martian2-726x400

The Martian, með Matt Damon í aðalhlutverki, var í toppsætinu aðra helgina í röð með tekjur upp á 11,4 milljónir dala.

Samtals hefur hún náð inn 182,8 milljónum dala heima fyrir en utan N-Ameríku hefur hún náð inn 245 milljónum dala. Samanlagt nema tekjurnar tæplega 430 milljónum en framleiðslukostnaður hennar var 108 milljónir dala, sem þýðir að hún hefur slegið rækilega í gegn.

Heildartekjur þessarar hrekkjavökuhelgar námu 74 milljónum dala, sem er versti árangur þessa árs.

Our Brand Is Crisis, nýjasta mynd Sandra Bullock, náði aðeins að krækja í 3,4 milljónir dala og endaði í sjöunda sæti yfir vinsælustu myndirnar, sem eru mikil vonbrigði þar á bæ.

Burnt, með Bradley Cooper í aðalhlutverki, þénaði 5 milljónir dala og lauk leik í fimmta sæti, á eftir The Martian, Goosebumps, Bridge of Spies og Hotel Transylvania 2.

Truth, með Cate Blanchett og Robert Redford í aðalhlutverkum, þénaði um eina milljón dala, sem var einnig undir væntingum.