Deadpool höfundur telur ekki líkur á Deadpool 3

Ofurhetjukvikmyndin Deadpool og framhaldsmyndin, Deadpool 2, eru einar tekjuhæstu X-Men kvikmyndir frá Fox kvikmyndaverinu, þó svo að þær séu ekki beint í sömu söguframvindu og aðrar X-Men myndir.

Alltaf hress.

Núna á Walt Disney afþreyingarrisinn allar kvikmyndir úr smiðju Fox, og öll sjónvarpsréttindi. Því er framtíð hins orðljóta Deadpool í óvissu. Allir vita að Disney mun að lokum framleiða nýjar X-Men myndir, en Deadpool, í túlkun Ryan Reynolds, er gríðarvinsæll, og því mætti halda að Disney vildi framleiða fleiri slíkar myndir.

En miðað við orð höfundar Deadpool, Rob Liefeld, er það þó líklega ekki raunin. „Sko, það gætu mögulega ekki orðið fleiri Deadpool kvikmyndir, og ég er bara mjög sáttur við það,“ sagði Liefeld við Collider vefsíðuna.

„Ég bý við þá staðreynd að hafa átt þátt í gríðarlega frábærri reynslu í tvö skipti, sem ég er ofboðslega stoltur af, og ég elska að þekkja alla sem að þessu koma. Ég elska Ryan, Josh [ Brolin ], Zazie [ Beets ], David [ Leitch ], Tim Miller. Þau öll.“

Hann segir í frétt Collider að allir hafi lagt sig alla fram og unnið frábært starf, og myndirnar séu sígildar. „En þú veist, að í heiminum sem við lifum í er ekkert öruggt. Og það er mikil fyrirhöfn að gera kvikmyndir. Og ég tala nú ekki um í Covid ástandinu. Það er skrýtið.“

Liefeld telur enn að persónan Cable, í túlkun Josh Brolin, verðskuldi sína eigin kvikmynd. Hann telur að hann eigi mikið inni, og miklu meira en sást í Deadpool.

Cable í ham.

„Cable ætti að fá sína eigin kvikmyndaseríu. Hann getur auðveldlega staðið einn og sér utan Deadpool myndanna. Hann hefur gert það í mörg ár. Ef Deadpool hefur komið við sögu í svo sem eins og 330 teiknimyndasögum, þá hefur Cable verið í 520. Ég er búinn að telja …“

Liefeld segist hafa rætt hugmyndina við Josh, og hann hafi verið spenntur.