Daredevil líklegur í næstu Spider-Man

Skemmtikrafturinn og Íslandsvinurinn Kevin Smith er aldeilis ekki óvanur því að kjafta frá sér leyndarmálum innan Hollywood-heimsins, helst þá upplýsingum sem tengjast bransanum eða ofurhetjumyndum á einhvern hátt.

Í hlaðvarpinu Fatman Beyond sagðist Smith hafa heyrt þann orðróm að Matt Murdock/Daredevil verði í áberandi hlutverki í næstu Spider-Man mynd. Þetta verður þá þriðja sjálfstæða myndin um Köngulóarmanninn með Tom Holland í samfestingnum og mun leikstjórinn Jon Watts (Homecoming, Far From Home) taka við taumunum á ný og loka þríleiknum.

Smith undirstrikaði ekki aðeins orðróminn um aðkomu Ofurhugans, heldur þykir líklegt að Murdock verði leikinn af sjálfum Charlie Cox, sem hefur leikið Daredevil í samnefndum Netflix-þáttum – með glæsibrag, myndu margir eflaust segja.

„Ég heyrði góðar fjandans fréttir fyrir stuttu!“ segir Smith við Marc Bernadin, vin sinn og gest hlaðvarpsins. Fullur spenningi spyr hann þá Bernadin:
„Það verður lögfræðingur í nýju Spider-Man myndinni, vissirðu það? Þeir [framleiðendur] ætla að fá Charlie Cox sem Matt Murdock. Þetta er orðið á götunni núna og sagt er að þetta sé sá orðrómur sem hafi fengið Marvel til að hugsa „Nei, andskotinn… hvernig slapp þetta út? “

Að öllu óbreyttu er áætlað að tökur Spider-Man 3 hefjist næstkomandi júlí og er búið við því að tökur standi yfir fram í nóvember. Hermt er að myndin verði tekin upp í Atlanta, New York, Los Angeles og á Íslandi.

Ljóst er þó að myndin muni heita eitthvað allt annað en Spider-Man 3.