Þögðu í heila viku

silence_stillAdam Driver og Andrew Garfield þögðu í heila viku, við undirbúning nýjustu myndar sinnar Silence. Myndin, sem er eftir Martin Scorsese, og byggð á sögu eftir Shūsaku Endō,  fjallar um tvo unga Jesúíta-trúboða á 17. öldinni, sem fara til Japans til að leita uppi lærimeistara sinn, sem Liam Neeson leikur.

Kvikmyndin er sögð vera lengsta mynd Scorsese til þessa, eða þrír tímar og 15 mínútur.

Driver og Garfield eyddu einu ári í undirbúning fyrir leik sinn í myndinni, en hluti af þeim undirbúningi var sjö daga dvöl á í þagnarbindindi í Jesúítaklaustri í St Bueno í Norður Vales, sem er um það bil klukkustundar akstursvegalengd frá Liverpool.

Þess má geta í þessu samhengi að Scorsese sjálfur eyddi næstum 30 árum í undirbúning myndarinnar.

„Í klaustrinu þá ferðu inn í þína eigin ímyndun og fylgir Jesú í gegnum líf hans allt frá getnaði og þar til hann er krossfestur og upprisinn,“ útskýrir Garfield í samtali við bandaríska dagblaðið The New York Times.

„Þú gengur, talar og biður í gegnum Jesús, og þjáist með honum. Og það getur verið átakanlegt fyrir einhvern sem hefur verið vinur þinn, sem þú elskar, að ganga í gegnum þessar þjáningar.“

Nú er bara að bíða og sjá hvernig þessi undirbúningur leikaranna skilar sér í myndinni sjálfri.

Silence verður frumsýnd í Bretlandi 1. janúar nk.