Úlfur Wall Street lætur sjá sig

Það hringja ætíð fagnaðar bjöllur þegar að ný Scorsese-mynd fer í framleiðslu, en nú hljóma þær enn á ný í ljósi þess að í upphafi mánaðarins hófust tökur á fimmta samstarfsverkefni hans og Leonardo DiCaprio; The Wolf of Wall Street. Félagarnir eru staddir í Manhattan og nú hafa nokkrar ljósmyndir frá tökustað sloppið á netið, sem sýna lítið annað en aðalpersónuna, Jordan Belfort, í fullum skrúða.

Byggð á sannsögulegu bók Belforts að sama nafni, þá fjallar sagan um upprisu Jordans innan gæðaklassa Wall Street og þær ljótu raunir sem fylgdu á eftir; sem innihalda m.a. mafíuna, alkóholisma og eiturlyfjaneyslu. Scorsese er hér að tækla efnivið sem er mitt á milli glæpadrama og grískrar harmsögu.

Handritið kemur frá Terrence Winter, sem er hvað þekktastur fyrir að hafa skapað hina frábæru þætti Boardwalk Empire, en hann skrifaði einnig lengi fyrir The Sopranos. Síðan, ólíkt fyrri verkum Scorsese, verður Wolf tekin upp stafrænt í staðinn fyrir á filmu og endar því sem fyrsta stafræna tvívíddar-myndin hans (Hugo var einnig tekin svona upp, en aðeins vegna þrívíddarinnar).

Að lokum þarf enginn að hafa áhyggjur af samleikurum DiCaprio, enda dúkka upp skemmtilegir leikarar eins og Jonah Hill, Jean Dujardin, Jon Favreau og Matthew McConaughey. Svo sakar ekki að hafa meistara Howard Shore bakvið hljóðrás myndarinnar.
The Wolf of Wall Street er væntanleg á næsta ári, en nákvæmur útgáfudagur hefur ekki verið gefinn upp.