Frumsýning: XL

Sambíóin frumsýna á föstudaginn næsta, þann 18. janúar, mynd Marteins Þórssonar, XL.

Myndin fjallar um þingmann, sem leikinn er af Ólafi Darra Ólafssyni, sem er neyddur í áfengismeðferð en ákveður að halda eitt heljarinnar partý áður en meðferðin hefst.

Sjáðu sýnishorn úr myndinni hér að neðan:

Í tilkynningu frá Sambíóunum segir að XL sé nokkurs konar blanda af myndunum The Hangover, Fear and Loathing in Las Vegas og Memento. „Myndin fjallar um fall manns, en um leið fall þjóðar með tilvísun í hrun, hroka, dramb og stærilæti og ekki síst meðvirkni þeirra sem fylgjast með frá hliðarlínunni.
Fjölskyldumaðurinn fyrrverandi, flagarinn óstýriláti og þingmaðurinn áfengisþyrsti Leifur Sigurðarson (Ólafur Darri Ólafsson) er skikkaður í meðferð af vini sínum og yfirmanni, forsætisráðherra Íslands (Þorsteinn Bachmann).

En áður en Leifur lætur flengja sig opinberlega heldur hann vinum sínum matarboð. Á meðan á því stendur kynnumst við bæði gestum og gestgjafanum betur og lærum í leiðinni um dramatíska og grátbroslega fortíð hópsins og sérstaklega ástarsamband Leifs við hina tvítugu Æsu (María Birta Bjarnadóttir) sem jafnframt er vinkona dóttur hans.

Eftir því sem Leifur djúsar meira koma fleiri leyndarmál í ljós uns það er tímabært að drífa sig heim, eða hvað?,“ segir í tilkynningunni.


Aðalhlutverk: Ólafur Darri Ólafsson, María Birta, Helgi Björnsson, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Þorsteinn Bachmann, nanna Kristín Magnúsdóttir, Rúnar Guðbrandsson & Margrét Helga Jóhannsdóttir

Leikstjórn: Marteinn Þórsson

Sýningarstaðir: Sambíóin Álfabakka, Kringlunni, Akureyri & Keflavík

Aldurstakmark: 16 ára

Áhugaverðir punktar til gamans: 

• Handrit myndarinnar er skrifað af leikstjóranum, Marteini Þórssyni og Guðmundi Óskarssyni, sem einnig framleiða hana ásamt Ólafi Darra og Ragnheiði Erlingsdóttur.
• Fyrir utan Árna Johnsen sem leikur sjálfan sig í XL koma fram í myndinni þingmennirnir Guðmundur Steingrímsson, Robert Marshall og Þráinn Bertelsson.

Smelltu hér til að lesa viðtal kvikmyndir.is við Martein Þórsson um XL m.a.