Mark Romanek boðið The Lost Symbol

Vinna er hafin á þriðju myndinni um táknfræðinginni Robert Langdon, og á Sony nú í viðræðum við leikstjóra um að taka að sér stykkið. Fyrri myndirnar, The Da Vinci Code og Angels & Demons gerði Ron Howard, en hann hefur ákveðið að draga sig til baka í framleiðsluhlutverkið á þeirri þriðju. Mark Romanek er nú sagður vera efstur á lista Sony, en hann á aðeins tvær kvikmyndir að baki, One Hour Photo með Robin Williams og Never Let Me Go sem kom út í fyrra. Hann hefur aðallega leikstýrt tónlistarmyndböndum, en í þessum tveimur kvikmyndum sýndi hann frábæra getu til að byggja upp hrífandi sögu á sterkri persónusköpun, og er því spennandi að Sony hafi leitað til hans með verkið. Þetta yrði langstærsta verkefni hans hingað til, en eins og frægt er áætlaði hann að leikstýra The Wolfman fyrir Universal en hætti við á síðustu stundu vegna ágreinings, og Joe Johnston tók við verkefninu.

The Lost Symbol fjallar annars eins og áður sagði um Robert Langdon, en í þetta skiptið er hann á heimavelli og gerist ævintýrið í Washington D.C. Kafað er í leyndardóma frímúrarareglunnar og samkvæmt venju er einhver ofstækisbrjálæðingur sem hefur tekið hugmyndirnar aðeins of langt og er farinn að drepa fólk í stórum stíl. Miðað við að vera framhald af stærstu spennusögu síðasta áratugar tókst Dan Brown bara nokkuð vel upp með bókina, og mun hann einnig hafa hönd í gerð handrits myndarinnar. Óskarsverðlaunahafinn Akiva Goldsman (Batman & Robin) sem gerði handritin að síðustu tveimur myndum mun ekki snúa aftur. Tom Hanks er ekki búinn að skrifa undir neitt um að endurtaka hlutverk sitt sem Langdon, en fastlega er gert ráð fyrir honum í myndinni.

Ég veit ekki með ykkur, en mér þykja þetta góðar fréttir. Ron Howard er fínn leikstjóri, en manni fannst myndirnar aldrei ná því sem bækurnar gerðu svo vel – að vera drulluspennandi. Þess vegna held ég að það sé sterkur leikur að fá nýjan mann í brúna – sérstaklega ef verið er að miða á einhvern eins hæfileikaríkan og Romanek.


Romanek að leikstýra hinni frábæru Never Let Me Go.