Amy Adams tjáir sig um Lois Lane

Amy Adams tjáir sig um hlutverk sitt sem Lois Lane í nýju viðtali við tímaritið Total Film. Lane er draumadís Clark Kent, öðru nafni Súperman, í Man of Steel sem kemur í bíó í sumar.

Spurð út í túlkun sína á Lane sagði Adams: „Ég vildi að hún væri kona sem aðrar konur gætu náð tengslum við, ekki einhver plága. Lois getur verið dálítið yfirþyrmandi og mætir á svæðið á óheppilegum tímapunktum. Maður skilur samt ástæðuna fyrir því.“

Adams hafði farið í áheyrnarprufur fyrir hlutverk Lane áður en kom að nýju myndinni. „Þegar J.J. Abrams og Brett Ratner ætluðu að gera sína útgáfu af Súperman fór ég í áheyrnarprufu. Ég fór líka í prufu fyrir  Superman Returns. Þannig að þetta var þriðja skiptið mitt,“ sagði hún.

Adams, sem hefur í fjórgang verið tilnefnd til Óskarsverðlauna, leikur næst söngkonuna Janis Joplin í myndinni Janis Joplin: Get It While You Can.