Making a Murderer lögfræðingar mæta í Hörpu

Þann 26. mars nk. munu Dean Strang og Jerry Buting koma fram á Íslandi og ræða bandarísku heimildaþættina Making a Murderer sem sýndir voru á Netflix, frammi fyrir áhorfendum og með þeim.  „Nú er tækifærið til að fá svör við öllum þeim spurningum sem brenna enn á vörum okkar um málið og þættina!,“ segir í tilkynningu frá Senu.

making

Umræðan sem skapaðist eftir að Making a Murderer duttu inn á Netflix fór ekki fram hjá neinum. Allir höfðu skoðun á málinu, hvernig málsmeðferðin var og hvort Steven Avery og frændi hans voru sekir um að hafa nauðgað og myrt ljósmyndarann Teresu Halbach eða ekki og enn frekar hvernig framleiðendur þáttanna fjölluðu um málið. Lögfræðingar Stevens, þeir Dean Strang og Jerry Buting, voru hetjur þáttanna og gagnrýndu harðlega hvernig lögregla, lögfræðingar og dómskerfið meðhöndlaði málið. Steven hafði áður setið inni í 18 ár fyrir nauðgun, þrátt fyrir að hafa fjarvistarsönnun, frá 1985 og þar til honum var sleppt árið 2003 þegar DNA sönnunargögn sýndu fram á að hann hafði verið ranglega sakfelldur. Svo virtist sem lögreglan hefði harma að hefna og væri harðákveðin í að koma Steven nú endanlega bak við lás og slá.

makingamurd„Þeir félagar, Dean og Jerry, urðu í kjölfar þáttanna óvænt að hálfgerðum stjörnum víða um heim og umræður á netinu um um þá félaga fór um víðan völl, allt frá réttlætiskennd þeirra og tilfinninganæmi yfir í fatasmekk og jú, eitthvað var rætt um kynþokka. En báðir voru sammála um að eiginkonum sínum fyndist það sprenghlægilegt!,“ segir í frétt Senu.

Umræðurnar fara fram í Silfurbergi, Hörpu, og mun grínistinn og lögfræðingurinn Bergur Ebbi stjórna þeim.