Mad Max: Fury Road frumsýnd á föstudaginn

mad-max-fury-road-affiche-53d0cd108fbe8Fyrsta stórmynd sumarsins, Mad Max: Fury Road verður heimsfrumsýnd föstudaginn 15. maí. Þetta er nýjasta mynd Tom Hardy og Charlize Theron sem fara með aðalhlutverkin í nýjustu útgáfu leikstjórans George Miller sem er ekki einungis höfundur upprunalegu myndanna heldur leikstýrði hann þeim einnig.

Kvikmyndaheimurinn hefur lengi beðið eftir nýrri útgáfu meistara Georges Miller á Mad Max-myndinni frábæru sem hann gerði árið 1979, en hún var ein fyrsta myndin sem Mel Gibson lék í og gerði hann að stórstjörnu. Á næstu árum fylgdu síðan framhaldsmyndirnar Mad Max 2: The Road Warrior (1981), sem þótti ekki gefa fyrstu myndinni neitt eftir í gæðum, og Mad Max: Beyond Thunderdome (1985) sem einnig naut mikilla vinsælda.

Allar götur síðan hefur George Miller haft í hyggju að gera nýja mynd eftir sögunni og má segja að undirbúningurinn hafi hafist fyrir tuttugu og fimm árum þótt sjálf kvikmyndagerðin hafi ekki farið í gang fyrr en 2009. Og nú er Mad Max: Fury Road sem sagt að koma í bíó og er áhorfendum lofað að hér sé um að ræða einhverja mögnuðustu kvikmyndaveislu síðari ára, enda er því spáð að myndin verði ein sú alvinsælasta í heiminum á árinu 2015.

Sýningarstaðir: Sambíóin Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Keflavík og Akureyri, Laugarásbíó, Selfossbíó, Ísafjarðarbíó, Króksbíó og Bíóhöllin Akranesi