Ný Star Wars mynd á hverju ári

Eins og flestum er kunnugt er LucasFilm nú í eigu Walt Disney og ætla þeir að frumsýna Star Wars VII árið 2015. Nú hefur Disney staðfest að aðdáendur Star Wars eigi von á nýrri mynd árlega frá og með 2015 í allt að fimm ár. Þetta þýðir að það verði gerðar sex Star Wars kvikmyndir á næstu sjö árum.

Disney-fyrirtækið staðfesti þetta á viðburði kvikmyndahúsaeigenda í Bandaríkjunum í vikunni. Einnig var rætt um að framhaldssmyndirnar muni beina sjónum sínum að persónum sem ekki hafa fengið að láta ljós sitt skína í fyrri myndunum.

Í kaupunum á LucasFilm eignuðust Disney ekki einungis réttinn á kvikmyndunum heldur öllum varningi sem með fylgir. LucasFilm þénaði meðal annars um 215 milljónir dollara á varningi í fyrra þrátt fyrir að ný mynd hafi ekki litið dagsins ljós í fimm ár.

Þótt að kaupin á LucasFilm hafi komið mörgum á óvart er deginum ljósara að Disney ætlar sér að mjólka fyribærið duglega og er því óskandi að það verði lagður jafn mikill metnaður í gæðin og við magnið.